Viðskipti innlent

Byr með lausnir til fyrirtækja vegna erlendra lána

Þau fyrirtæki sem tekið hafa erlend lán í gegnum Byr sparisjóð geta nú leitað eftir lækkun á greiðslubyrði að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Það er gert með því að lántaki greiðir reglulega fasta fjárhæð þar sem afborgun og vextir miðast við greiðslubyrði eins og hún var 2. maí 2008 en ekki við gengi viðkomandi gjaldmiðils eins og verið hefur fram til þessa.

Í tilkynningu segir að þegar greiðslubyrði er fest verða afborganir inn á lánið sjálft eftir sem áður bundnar við gengi viðkomandi gjaldmiðils. Sá munur sem myndast bætist við höfuðstól láns eða dregst frá honum, allt eftir gengisþróun íslensku krónunnar og við það lengist lánstíminn eða styttist.

Sé mismunur til staðar eftir að upphaflegum lánstíma lýkur gefst viðskiptavinum kostur á að lengja lánið um allt að helming frá upphaflegum lánstíma. Hægt er að segja upp fastgreiðslum hvenær sem er á lánstímanum.

Byr sparisjóður leggur áherslu á að hver og einn skoði hvað hentar í hverju tilviki og taki ákvarðanir í samræmi við það. Byr hvetur forsvarsmenn fyrirtækja til þess að leita upplýsinga hjá ráðgjöfum sparisjóðsins í næsta útibú.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×