Skoðun

Vannýttir möguleikar

Magnús Orri schram skrifar

Hópur frumkvöðla vinnur að undirbúningi og stofnun heilbrigðisfyrirtækis á Suðurnesjum. Viðskiptahugmynd fyrirtækisins byggir á því að nýta fullkomnar, en vannýttar skurðstofur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og nýta húsnæði á gamla vallarsvæðinu til framhaldsmeðferða og endurhæfingar. Kaupendur þjónustunnar yrðu erlendir opinberir aðilar fyrir hönd skjólstæðinga sinna.

Áætlanir gera ráð fyrir að skapa 300 störf enda nýtur verkefnið mikils stuðnings sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Það er mikilvægt að blanda ekki viðskiptahugmynd þessa fyrirtækis við einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu, því markmiðið er að nýta betur þá fjárfestingu sem ríkið hefur nú þegar lagt úti, þ.e. í menntun starfsfólks og uppbyggingu hágæða húsnæðis.

Fyrirtækið vill leigja aðgerðaaðstöðu af ríkinu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og kaupa þjónustu af fagfólkinu sem starfar á stofnuninni. Stjórnvöld fengju greitt fyrir alla þjónustu sem þau veittu.

Hér er semsagt ekki verið að forgangsraða innan heilbrigðiskerfisins og taka þá fram fyrir röðina sem greiða fyrir þjónustuna, heldur fá útlendingar að koma til Íslands í aðgerðir, þegar ekki er verið að nýta húsnæði eða starfsfólk. Ekki má gleyma mikilvægasta hluta þjónustunnar, endurhæfingu að lokinni aðgerð. Endurhæfing varir í 2-3 vikur og verður að vera í nágrenni við sjúkrahúsið. Í því felast mikil tækifæri fyrir Suðurnes.

Valkostur frumkvöðlanna er að byggja eigin skurðstofur, og legudeild, en slíkt yrði ákaflega óhagkvæmt fyrir alla aðila. Óþörf fjárfesting, þegar núverandi aðstaða er ekki nýtt að fullu.

Það er mikilvægt fyrir ráðuneyti heilbrigðismála að bregðast vel við þessari málaleitan frumkvöðlanna á Suðurnesjunum. Betri nýting á opinberri aðstöðu til verðmætasköpunar í nærumhverfi hlýtur að vera áhugaverð nú á tímum. Ráðherra hefur einnig einstakt tækifæri til að styðja við bakið á helsta vaxtarbroddi íslenskrar ferðaþjónustu, sem er uppbygging heilsuferðaþjónustu. Ísland getur náð frumkvæði í þeirri gerð ferðaþjónustu - með okkar náttúru, hreinu og góðu ímynd matvæla, og svo heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða.

Höfundur er alþingismaður.




Skoðun

Sjá meira


×