Viðskipti innlent

Mál erlendra kröfuhafa SPRON gegn ríkinu þingfest

Mál erlendra kröfuhafa SPRON á hendur Íslenska ríkinu var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Kröfuhafarnir telja að tjón þeirra vegna yfirtöku ríkisins á SPRON hlaupum á tugum milljarða króna.

Málið er höfðað til viðurkenningar á skaðabótaskyldu ríkisins vegna yfirtökunnar á SPRON en að stefnunni standa 27 bankar frá Evrópu, Miðausturlöndum og Asíu.

Fjármálaeftirlitið tók yfir rekstur SPRON 21. mars síðastliðinn og í kjölfarið var útibúum bankans lokað.

Kröfuhafarnir höfðu áður lagt fram tilboð til að reyna bjarga bankanum frá falli. Tilboðið fól meðal annars í sér lengingu lána, breytingu á skuldum í hlutafé og niðurfellingu skulda. Tilboðinu var hins vegar aldrei svarað af hálfu ríkisins.

Kröfuhafarnir telja að yfirtaka ríkisins á SPRON hafi verið ólögleg og brotið meðal annars gegn jafnræðisreglu og eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Kröfur þeirra á hendur SPRON námu 441 milljón Evra þegar bankinn var yfirtekinn eða sem nemur 75 milljörðum króna miðað við núverandi gengi. Kröfuhafar telja að yfirtaka ríkisins hafi rýrt eignir bankans verulega og nú megi teljast ólíklegt að eignir dugi fyrir skuldum. Tap kröfuhafar hleypur því á tugum milljarða króna.

Aðalmeðferð fer fram í málinu næst haust.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×