Viðskipti innlent

Fjármálaráðherra: Aðgerðir Breta sköðuðu Ísland

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Steingrímur J. Sigfússon segir aðgerðir Breta hafa skaðað Íslendinga.
Steingrímur J. Sigfússon segir aðgerðir Breta hafa skaðað Íslendinga.
Það er ekki hægt að líta framhjá því að aðgerðir breskra stjórnvalda þann 8. október í fyrra voru Íslandi mjög skaðlegar, segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.

Í samtali við Simon Watkins, blaðamann Financial Mail, segir Steingrímur að íslensk stjórnvöld hafi verið að vonast til þess að Kaupþing, sem var stærsti bankinn á Íslandi, myndi bjargast úr fjármálakreppunni. Inngrip breskra stjórnvalda í starfsemi Singer & Friedlander bankans hafi hins vegar þýtt endalok Kaupþings. „Við vissum að hinir tveir bankarnir voru í miklum vandræðum, en ég held að allir hafi vonað að stærsta bankanum yrði bjargað og það voru miklar líkur á að það gæti gerst," segir Steingrímur í viðtalinu.

Steingrímur bendir á að Singer & Friedlander hafi verið breskur banki en í eigu útlendinga. Hann spyr hvers vegna bankinn hafi ekki verið aðstoðaður með sama hætti og aðrir breskir bankar.

„Svo ekki sé minnst á að notkun hryðjuverkalaganna og ummæli hátt settra manna í Bretlandi beindu sjónum að því í hve slæmri stöðu Ísland var í. Hvort sem um var að ræða ummæli Alistairs Darling eða Gordons Brown, þá voru þau ekki hjálpleg," segir Steingrímur.

Hann segist ekki vera að reyna að kenna neinum um það hvernig fór. Sökin liggi að sjálfsögðu á meðal Íslendinga, en ytri þættir hafi jafnframt haft áhrif. Aðgerðir breskra stjórnvalda hafi verið skaðlegar burtséð frá því á hvaða forsendum þeim var beitt.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×