Viðskipti innlent

Háir innlánsvextir auka áhættusækni banka

Þúsundir Breta lögðu sparifé sitt inn á Icesave reikninga Landsbankans.
Þúsundir Breta lögðu sparifé sitt inn á Icesave reikninga Landsbankans.

Bandarískir bankar sem boðið hafa háa vexti á innlánum sínum standa nú margir hverjir frammi fyrir verulegum vanda. Ástæðan fyrir vandanum eru svokallaðir heitir peningar (e. hot money). Heitir peningar eru innstæður á hávaxtareikningum sem síðan eru lánaðir til áhættusamra verkefna. Á undanförnum tveimur árum hafa 79 bandarískir bankar farið í þrot og höfðu þeir hlutfallslega fjórfalt meiri innstæður en meðalbanki og þriðjungur af þeim bönkum óx mjög hratt.

Þessar innstæður greiða vexti sem eru um tuttugu prósentum hærri en gengur og gerist þannig að verulegir fjármunir streyma til bankanna sem bjóða bestu kjörin fyrir sparifjáreigendur. Þegar bankarnir lenda síðan í einhverjum skakkaföllum streyma fjármunirnir jafnvel hraðar út úr bönkunum en er þeir komu inn. Þetta kemur fram í grein á dailyfinance.com.

Slíkar innstæður gera það að verkum að bankarnir verða að endurlána þessa peninga fyrir hærri vexti en þá sem bankinn greiðir innstæðueigendum sínum. Það getur reynst þrautin þyngri. Bankarnir taka því meiri áhættu til að sitja ekki uppi með slíka fjármuni og endurlána því þessa peninga í áhættusöm verkefni sem skila þar af leiðandi miklum vaxtatekjum.

Fjárfestingabanki í nágrenni Atlanta jók innlán sín úr 693 þúsund dölum árið 2000 í 798 milljónir dala árið 2008. Aukningin nemur því rúmlega 115 þúsund prósentum! Bankinn lánaði peningana í fasteigna- og lóðarkaup. Lánin voru arðsöm í fasteignabólunni og árið 2007 námu þessi lán 53 prósentum af lánasafni bankans. Margir bankar hafa farið flatt á slíkum innlánssöfnunum þó staða þessa ákveðna banka í Atlanta fylgi ekki sögunni.

Umfjöllun blaðsins heldur áfram. Heitir peningar eru vandamál alls staðar í heiminum. Í október síðastliðnum aðstoðuðu þeir við að hrun bankakerfis heillrar þjóðar þegar íslenskir bankar höfðu safnað gríðarlegum innlánum og greiddu svimandi háa vexti af þeim. Er þá sérstaklega minnst á Icesave reikninga Landsbankans. Íslensku bankarnir endurlánuðu féð í áhættusamar fjárfestingar sem greiddu að jafnaði hærri vexti en bankarnir buðu sínum sparifjáreigendum.

Hrun íslensku bankanna hófst síðan í kjölfarið á falli amerískra banka og ballið var búið þegar bandaríski bankinn Lehmann Brothers fór í þrot í september síðastliðnum. Afganginn þekkjum við Íslendingar en hvernig sú saga endar á enn eftir að koma í ljós.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×