Viðskipti innlent

Helmingur gjaldeyrisforðans á gjalddaga innan 30 daga

Helmingur af gjaldeyrisforða Seðlabankans, eða um 180 milljarðar kr., er á gjalddaga innan næstu 30 daga. Um er að ræða skammtímalán sem bankinn rúllar á undan sér en þau hafa farið vaxandi sem hlutfall af gjaldeyrisforðanum frá því á miðju síðasta ári.

Til samanburðar má geta þess að fyrir maí í fyrra voru þessi skammtímalán um 20-25% hlutfall af heildargjaldeyrisforðanum.

Í daglegu fréttabréfi Landsbankans kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum nam gjaldeyrisforðinn hjá Seðlabankanum 341 milljarði kr. um síðustu mánaðarmót og hafði rýrnað um 23,3 milljarða í febrúar eða um 6%.

Gjaldeyrir og innistæður Seðlabankans hjá öðrum seðlabönkum, BIS bankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem mynda 16% af gjaldeyrisforðanum, rýrnuðu hinsvegar um 22% í febrúar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×