Viðskipti innlent

Rekstri Verðbréfunar hf. verður hætt

Stjórn Verðbréfunar hf. samþykkti á fundi sínum þann 16. september 2009 samkomulag við NBI hf. um kaup á útistandandi skuldabréfum Verðbréfunar hf. á uppgreiðsluvirði safnbréfanna. Rekstri Verðbréfunar hf. verður því hætt.

Í tilkynningu segir að leitast verður eftir samþykki kröfuhafa safnbréfanna og er stefnt að uppgjöri þann 1.12.2009. Tilgangur Verðbréfunar hf. hefur verið kaup og eignarhald safna fasteignaveðlána af Landsbanka Íslands hf. og að standa að eigin fjármögnun með útgáfu markaðshæfra skuldabréfa.

Þann 8.10.2008 var hlutur Landsbanka Íslands hf. seldur NBI hf. Eigendur útgefinna skuldabréfa eru samtals fimm og er heildarnafnverð útistandandi skuldabréfa 143 milljónir kr. Undanfarin ár hefur rekstur Verðbréfunar hf. verið í lágmarki og ekki verið um útgáfur markaðshæfra skuldabréfa.

Í tilkynningu um uppgjör félagsins fyrir síðasta ár segir að starfsemi Verðbréfunar hf. var í lágmarki 2008. Umtalsverðar breytingar urðu á fasteignamarkaði 2008 og hefur dregið verulega úr uppgreiðslu á lánum félagsins.

Lánasafn Verðbréfunar hefur lækkað frá 31. desember 2007 um 8,8%. Útdráttur skuldabréfa hefur verið í jafnvægi á tímabilinu og verið dregið út úr safnbréfaflokkum í samræmi við inngreiðslur lána. Rekstrarhagnaður Verðbréfunar hf. á árinu 2008 var neikvæður um 21,16 milljónir króna fyrir og eftir útreikning skatta.

Heildareignir félagsins hafa lækkað um 43 miljónir króna frá 31. desember 2007 eða um 10,2%. Eigið fé félagsins lækkaði á sama tíma um 21,16 milljónir króna frá fyrra ári.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×