Viðskipti innlent

FME veitir nýjum verðbréfasjóð starfsleyfi

Fjármálaeftirlitið (FME) hefur veitt GAM Management hf. starfsleyfi sem rekstrarfélag verðbréfasjóða samkvæmt lögum og reglum um fjármálafyrirtæki.

Jafnframt hefur eigendum GAM Management hf., sem eru MP Banki hf., Ægir Invest hf. og Agnar Tómas Möller, verið veitt heimild til að fara með virkan eignarhlut í félaginu.

Í frétt um málið á vefsíðu FME segir að starfsleyfi GAM Management hf., tekur til reksturs verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu, fjárfestingarráðgjafar og vörslu og stjórnun fjármálagerninga í sameiginlegri fjárfestingu.

Rekstrarfélagið hyggst fyrst um sinn starfrækja einn verðbréfasjóð, Verðbréfasjóð GAM Management og tvo fagfjárfestasjóði, GAMMA: Iceland Fixed Income Fund og GAMMA: FX.

Verðbréfasjóður GAM Management hefur sem slíkur heimild til markaðssetningar á Íslandi og í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Verðbréfasjóðurinn hefur eina sjóðsdeild, GAMMA: Iceland Government Fund. Samkvæmt reglum sjóðsdeildarinnar hyggst rekstrarfélag sjóðsins nýta heimild laga til að binda allt að 100% af eignum hennar í verðbréfum og peningamarkaðsskjölum , en samkvæmt stefnu sjóðsdeildarinnar fjárfestir hún í fjármálagerningum sem gefnir eru út af ríkissjóði eða aðilum með ábyrgð ríkissjóðs. Vörslufyrirtæki sjóðsins er MP Banki hf.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×