Viðskipti innlent

Lánin notuð til að kom í veg fyrir greiðsluþrot

Það hefur alltaf legið fyrir að lánin frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum fari í að standa undir öðrum erlendum lánum, segir Gunnar Tómasson, hagfræðingur. Hann segir að lánin fari ekki í að byggja upp gjaldeyrisvarasjóðinn - heldur í að koma í veg fyrir greiðsluþrot.

Ár er liðið frá því samið var við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um aðkomu að endurreisn Íslands. Ráðamenn hafa ítrekað talað um mikilvægi þess að fá lán frá sjóðnum og öðrum löndum til að stækka gjaldeyrisforðann. Það myndi auka trúverðugleikann og styðja við gengi krónunnar.

Gunnar Tómasson, hagfræðingur og fyrrverandi starfsmaður AGS, segir að alltaf hafi hins vegar legið fyrir að lánin færu í að greiða afborganir af erlendum skuldum. Þegar skýrsla AGS sé skoðuð komi enda í ljós að forðinn breytist nánast ekkert á næstu tveimur árum.

„Þetta skiptir meginmáli í allri umræðunni um hver staða okkar er gagnvart erlendum skuldbindingum. Við erum ekki að byggja upp gjaldeyrisvarasjóðinn með þessum lánum. Við erum að forðast greiðsluþrot," segir Gunnar.

Grundvallarforsendur efnahagsáætlunarinnar séu í raun brostnar. Verðbólga hærri í lok árs en áætlunin geri ráð fyrir, og erlendar skuldir meiri en fyrst var áætlað.

„Ef ég á að segja alveg hreint út þá tel ég að AGS geri sér fulla grein fyrir því að aðgerðaráætlunin hafi ekki gengið upp og að stór vandi sé framundan. En af pólitískum ástæðum kjósa þeir og íslensk stjórnvöld að láta sem svo sé ekki," segir Gunnar.

Ef koma eigi efnahagslífinu af stað sé mikilvægt að horfa blákalt á staðreyndirnar. Fulltrúar sjóðsins reyni hins vegar að verja áætlunina, á forsendum sem standist ekki, í staðinn fyrir að taka hana til róttækrar endurskoðunar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×