Viðskipti innlent

Hagfræðideild: Spáir nær óbreyttri verðbólgu

Hagfræðideild Landsbankans spáir því að verðbólga milli ágúst og september mælist 0,8%. Gangi spáin eftir mun 12 mánaða verðbólga lækka lítilsháttar og mælast 10,8% í september samanborið við 10,9% í ágúst.

 

Í Hagsjá deildarinnar segir að í september megi búast við að verðlag hækki þó nokkuð vegna áframhaldandi verðhækkunar á fatnaði og skóm í kjölfar útsöluloka auk þess sem ný vörugjöld á ýmsa matvöru tóku gildi þann 1.september.

 

Aftur á móti bendir flest til þess að fasteignaverð sé ennþá á niðurleið en í spánni er gert ráð fyrir um 0,1% áhrifum til lækkunar vísitölunnar (VNV) af þeim sökum. Þá hefur eldsneyti lækkað lítillega frá síðustu mælingu en að öllu óbreyttu má reikna með að sú lækkun hafi um 0,05% áhrif til lækkunar VNV.

 

Hækkun vörugjalda á ýmsa matvöru tók gildi þann 1. september, en vörugjöldin eru lögð á ýmsar tegundir matvöru sem mismunandi há krónutala á mismunandi tollnúmer. „Við eigum von á að hækkun vörugjaldanna verði að mestu leyti velt beint út í verðlagið og að langstærstur hluti hækkunarinnar komi því fram strax í septembermælingunni," segir í Hagsjánni.



Ennfremur segir að síðastliðna þrjá mánuði hefur krónan sveiflast á nokkuð þröngu bili en gengisvísitalan hefur verið á bilinu 230-240 frá því í byrjun júní og stendur þegar þetta er skrifað í 234 stigum. Það hefur því hægt og bítandi dregið úr þeim verðbólguþrýstingi sem gengisveiking krónunnar hefur valdið.

Ljóst er að verðbólga milli ágúst og september verður í hærra lagi. Þegar tímabundnar hækkanir verða gengnar yfir má í kjölfarið búast við að 12 mánaða verðbólga lækki hratt það sem eftir lifir ársins.

 

Þessi spá byggir á áframhaldandi lækkun fasteignaverðs og að flestir aðrir liðir vísitölunnar hækki aðeins hóflega enda er eftirspurn enn takmörkuð auk þess sem gengi krónunnar hafi ekki veikst nema lítið eitt frá því síðasta vor.

 

Einnig detta á næstunni út úr mælingunni miklar verðhækkanir frá síðasta hausti sem veldur því að tólf mánaða verðbólga gæti fallið enn hraðar en ella. Verðlag hækkaði til að mynda um 2,2% í október 2008, 1,7% í nóvember og 1,5% í desember í fyrra.

Að því gefnu að gengi krónunnar haldist nokkuð stöðugt á næstunni má áætla að 12 mánaða verðbólga gæti verið komin í námunda við 6% í lok árs.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×