Viðskipti innlent

Saka FME og SÍ um brot gegn eignarétti og jafnræðisreglu

Í greinargerð sem 27 bankar víða um heiminn hafa sent frá sér vegna málshöfðunar þeirra á hendur Fjármálaeftirlitinu (FME), Seðlabanka Íslands (SÍ) og ríkisstjórnarinnar út af yfirtökunni á SPRON segir að ákæran snúist m.a. um brot gegn eignarétti og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Fyrrgreindir bankar, sem eru staðsettir í Evrópu, Miðausturlöndum og Asíu, höfðu fjármagnað SPRON upp að 441 milljónum evra eða tæplega 75 miljörðum kr. Endurgreiðsla á þessari upphæð sé nú vafasöm vegna aðgerða íslenskra stjórnvalda.

Í málssókninni gegn FME er eftirlitið m.a. ásakað um að hafa eyðilagt vörumerkið SPRON auk þess að hafa brotið gegn eignaréttarákvæðum stjórnarskrárinnar og jafnræðisreglunni sem kveðið er á um í 65. grein stjórnarskrárinnar.

Í málssókninni gegn SÍ er bankinn m.a. sakaður um að hafa á ólöglegan hátt dregið til baka stuðning sinn við SPRON á viðkvæmum tímapunkti í mars s.l. SÍ er einnig sakaður um brot gegn 65. grein stjórnarskrárinnar og að hafa gert upp á milli banka á ólöglegan hátt.

Fram kemur í greinargerðinni að samningar um endurskipulagningu SPRON hafi gengið vel fyrir sig með vitund og vilja FME og SÍ allt fram að marsmánuði s.l. Þá hafi íslensk stjórnvöld skyndilega breytt afstöðu sinni þrátt fyrir að engar raunverulegar ástæður væru fyrir því að telja að skuldastaða SPRON hefði versnað. Þá hafi SÍ hætt stuðningi sínum við SPRON og FME tilkynnt að það yrði erfitt að leyfa SPRON að starfa áfram.

Þá er það gagnrýnt að lánadrottnarnir hafi ekki fengið svör við fyrirspurnum sínum um afhverju íslensk stjórnvöld hafi breytt afstöðu sinni til samninga þeirra um endurskipulagningu SPRON.

Sökum þessa hafi málssókn verið eina leiðin fyrir bankanna 27.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×