Viðskipti innlent

Telja sig þvingaða í viðskipti við Kaupþing

Persónuvernd hafa borist kvartanir frá viðskiptavinum SPRON vegna flutnings á innistæðum þeirra yfir í Nýja Kaupþing. Fólkið telur að flutningarnir séu ólöglegir og að það hafi verið þvingað í viðskipti við Kaupþing.

Allar innistæður viðskiptavina SPRON voru fluttar til nýja Kaupþings þegar Fjármálaeftirlitið tók bankann yfir á laugardaginn.

Nú þegar hafa nokkrir viðskiptavinir SPRON sett sig í samband við Persónuvernd vegna málsins. Telja þeir á sér brotið þar sem bankaupplýsingar hafi verið sendar á annað fjármálafyrirtæki án þeirra samþykkis.

Þannig hafi fólkið verið þvingað í viðskipti við Kaupþing áður en það fékk tækifæri til að skipta um banka. Þær upplýsingar fengust hjá Persónuvernd að um þessa flutninga gilda ekki almenn persónuverndarlög. Málið heyri undir Fjármálaeftirlitið

Neyðarlögin, sem samþykkt voru á Alþingi í byrjun október á síðasta ári veitir Fjármálaeftirlitinu heimildir til að grípa til sérstakra ráðstafana til að vernda meðal annars innistæður.

Berghildur Erla Bernharðsdóttir, upplýsingafulltrúi Nýja Kaupþings, segir að bankanum hafi þó ekki borist margar kvartanir frá fyrrum viðskiptavinum SPRON.

„Kvartanir snúast fyrst og fremst um útlánin og hvernig þau verða. Ens og staðan er eru útlánin hjá skilanefndinni og það á eftir að ákveða hver mun þjónusta þau, en það skýrist næstu daga," segir Berghildur sem á von á því verði gert þannig að röskun viðskiptavina SPRON verði sem minnst.

Aðspurð segir Berghildur lítið hafa verið um að viðskiptavinir SPRON hafi lokað reikningum sínum og flutt viðskipti sín yfir í aðra banka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×