Innlent

Ætla að urða um 800 tonn af færiböndum

Urð og grjót voru til að færa möl og grjót upp úr aðrennslisgöngum Kárahnjúkavirkjunar verða nú urðuð.Mynd/Landsvirkjun
Urð og grjót voru til að færa möl og grjót upp úr aðrennslisgöngum Kárahnjúkavirkjunar verða nú urðuð.Mynd/Landsvirkjun

Ítalska verktakafyrirtækið Impregilo ætlar að láta urða færibönd sem notuð voru til að koma grjóti og möl upp úr aðrennslisgöngum Kárahnjúkavirkjunar.

Færibandinu, sem var um hálfur metri á breidd, hefur verið rúllað upp í um 200 rúllur, sem hver um sig er um fjögur tonn. Samanlagt verða því um 800 tonn af gúmmíi, um fimmtíu vörubílshlöss, urðuð á urðunarstað Fljótsdalshéraðs á Tjarnarlandi á næstunni.

Umhverfisstofnun fékk ábendingu 12. júní um að til stæði að urða gúmmíið. Stofnunin lét stöðva urðunina tímabundið meðan kannað var hvort heimilt væri að urða svo mikið magn af gúmmíi, segir Kristinn Már Ársælsson, upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar.

Kristinn segir að við skoðun sérfræðinga stofnunarinnar hafi komið í ljós að löglegt væri að urða færiböndin, og hinn 16. júní hafi grænt ljós því verið gefið. Ólöglegt er að urða venjuleg bíldekk, en það er til að ýta undir endurvinnslu.

„Það er auðvitað ekki heppilegt hversu mikið er urðað af rusli almennt, en það er ekkert í reglum um urðunarstaði sem mælir gegn því að þetta sé urðað,“ segir Kristinn.

„Mér finnst þetta ekki vera sú aðferð sem við eigum að viðhafa,“ segir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands (NÍ). Eðlilegast væri að sækja þyrfti um leyfi til að urða þennan úrgang. Dekkjaverkstæðum sé ætlað að endurvinna bíldekk, og sama ætti líklega að gilda um þennan úrgang.

Árni segir þetta enn eina birtingarmynd þess að íslensk lög og reglur séu vanmegnug þegar komi að málum tengdum verktakafyrirtækinu Impregilo.

Skoða þurfi löggjöfina í nágrannalöndunum og stoppa í götin hér á landi.

„Það reyndist einfaldlega ekki efnahagslega hagkvæmt,“ segir Richard Graham, fulltrúi Impregilo á Íslandi, spurður hvers vegna böndin voru ekki nýtt í öðrum verkefnum Impregilo eða seld.

Hann segir böndin hafa verið mikið notuð og þar af leiðandi verið farin að veikjast. Þá sé kostnaður við að senda þau úr landi mikill.

„Við reyndum okkar besta til að koma böndunum í endurvinnslu, þetta er svo mikið magn að manni finnst ekki rétt að urða þau, en það reyndist ekki mögulegt,“ segir Graham. Böndin séu stálbundin og því illmögulegt og afar dýrt að endurvinna þau.

brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×