Viðskipti innlent

Efnahagsáætlunin komin á sporið

Ólafur Ísleifsson
Ólafur Ísleifsson

Tekið hefur verið fyrsta skrefið til að aflétta gjaldeyrishöftum sem ætlað er að halda bærilegum stöðugleika í gengi krónunnar. Stjórnvöld og AGS virðast telja gengið hafa náð jafnvægi á gengisvísitölunni 235 eða þar um bil. Höftin sýnast frekar en stýrivextirnir valda miklu um gengi krónunnar. Tengsl stýrivaxta við almenna bankavexti hafa rofnað og hafa háir stýrivextir ekki staðið í vegi fyrir því að viðskiptabankar hafa breytt vöxtum sínum í ýmsum atriðum. Við þær aðstæður sem hafa skapast í efnahagsmálum virðist sem stýrivextir Seðlabankans gegni óljósum tilgangi.

Frá þessu er þó sú undantekning að dráttarvextir skulu lögum samkvæmt vera 7% yfir stýrivöxtum Seðlabankans. Þess vegna eru dráttarvextir nú 19%. Virðist sem stjórnvöld telji svo háa dráttarvextir hæfilega í landi þar sem stökkbreyttar skuldir ógna atvinnufyrirtækjum og heimilum sem virðist ekki ætlað að eiga möguleika að vinna sig út úr vanskilum. Dráttarvextir á lánum sem miðast við erlenda mynt fylgja stirðu austurþýsku kerfi með fimm ára viðmiðunum. Enginn vilji sýnist uppi af hálfu stjórnvalda um að hnika neinu í þessum efnum.

Við þær aðstæður sem nú eru uppi verður ekki séð að nein skynsamleg ástæða sé til að halda stýrivöxtum Seðlabankans í 12%. Andstaða AGS við lækkun stýrivaxta hefur linast merkjanlega eftir fyrstu endurskoðun á efnahagsáætluninni. Fyrir liggur því að taka ákvörðun um umtalsverða lækkun stýrivaxta Seðlabankans.

Efnahagsáætlun stjórnvalda í samvinnu við AGS er nú aftur komin á sporið eftir að hafa sætt töfum á vettvangi sjóðsins. Stjórnvöld hljóta að nýta ársfjórðungslegar endurskoðanir til að leitast við að tryggja að áætlunin taki á hverjum tíma mið af íslenskum hagsmunum og breytilegum ytri skilyrðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×