Innlent

Hefði viljað álíka grein frá íslenskum stjórnvöldum

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknar, í ræðustól.
Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknar, í ræðustól. Mynd/GVA
„Maður las greinina með morgunkaffinu og hugsaði: Af hverju voru ekki Jóhanna og Steingrímur búin að skrifa svona greinar? Af hverju var utanríkisráðherrann okkar ekki búinn að senda frá sér svona grein?" segir Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknar í samtali við fréttastofu.

Hún ritar harðorðan pistil á heimasíðu sína í dag undir yfirskriftinni Málpípur auðvaldsins. Þar fjallar hún um grein Evu Joly sem birtist í Morgunblaðinu í dag, þar sem sú síðarnefnda tók til varna fyrir land og þjóð

Eygló átelur íslensk stjórnvöld fyrir að hafa ekki sjálf tekið upp hanskann fyrir þjóðina strax í október.

Í pistlinum segir Eygló að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefðu hugsanlega betur eytt gærdeginum í að skrifa greinar í stærstu blöð Evrópu líkt og Joly í stað þess að „[...] boða til blaðamannafundar þar sem þau lögðust flöt fyrir AGS, Bretum og Hollendingum."

Þá segist hún nánast hafa fengið á tilfinninguna að heimurinn hafi snúist á hlið þegar Jóhanna og Steingrímur eru orðin málpípur auðvaldsins um allan hinn vestræna heim.

Aðspurð hvort henni finnist íslensk stjórnvöld eiga inni fyrir þessari hörðu gagnrýni telur hún svo vera.

„Aftur og aftur höfum við fengið að heyra það að þeir sem áttu að vera að berjast fyrir okkur voru frekar að tala máli Breta og Hollendinga og eru að því ennþá."

Pistil Eyglóar má í heild sinni lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×