Viðskipti innlent

Ráðgjafarstofa fyrir fyrirtæki í vandræðum

Eygló Harðardóttir, þingmaður og ritari Framsóknarflokksins.
Eygló Harðardóttir, þingmaður og ritari Framsóknarflokksins.
Fimm þingmenn fjögurra flokka vilja að stofnuð verði ráðgjafarstofa fyrir fyrirtæki í greiðsluörðugleikum. „Við teljum að fyrirtæki í rauninni hafi ekki neinn stað til að leita til. Stofan er því bæði hugsað til að ráðleggja fyrirtækjum að halda áfram rekstri eða hætta rekstri til að takmarka skaðann," segir Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrsti flutningsmaður tillögunnar.

Eygló telur nauðsynlegt að stofna slíka ráðgjafarstofu. „Við erum að horfa á ofboðslega alvarlega stöðu," segir Eygló vísar í tölur Hagstofu Íslands um fjölda gjaldþrota máli sínu til stuðnings. Tölur sýna 70% aukningu í janúar og 38% aukningu í febrúar á þessu ári miðað við sömu mánuði í fyrra. Eygló segir að í fyrra hafi verið metár hvað varðar gjaldþrot fyrirtækja og ástandið sé því mjög alvarlegt.

Í greinargerð með tillögunni segir ráðgjafarstofa fyrir fyrirtæki í greiðsluörðugleikum kæmi til með að gegna svipuðu hlutverki og ráðgjafarstofa fyrir heimilin. Hún mundi aðstoða eigendur og stjórnendur fyrirtækja við að yfirfara reksturinn, semja við lánardrottna og ráðleggja um áframhaldandi rekstur eða stöðvun. „Hugmyndin er ekki ný af nálinni en á við hvort sem stormar geisa í efnahagslífinu eða þegar vel gengur," segir í greinargerðinni.

Meðflutningsmenn eru Álfheiður Ingadóttir Vinstri grænum, Björk Guðjónsdóttir Sjálfstæðisflokki, Einar Már Sigurðarson Samfylkingu og Siv Friðleifsdóttir Framsóknarflokki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×