Viðskipti innlent

Enn lækkar krónan - Verð hennar á aflandsmarkaði 18% lægra

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Gengi krónunnar hefur lækkað í morgun um tæpt hálft prósent í fremur litlum millibankaviðskiptum. Er þetta þriðji dagurinn í röð sem gengi krónunnar lækkar en í gær lækkaði gengi hennar um hálft prósent og voru viðskipti á millibankamarkaði með gjaldeyri tvær milljónir evra sem er nokkuð meira en venjulega en engu að síður lítið. Þetta kemur fram í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

Verð á krónunni er 18 prósentum lægra á aflandsmarkaði heldur en á innlendum markaði sem gefur vísbendingar um að krónan muni lækka enn frekar þegar og hreinlega ef gjaldeyrishöftin verða afnumin á næstu tveimur til þremur árum.

Evran stendur nú í tæplega 181 krónum og nálægt sínu lægsta gildi á árinu.



Áhyggjuefni


Gengi krónunnar hefur lækkað frá því að Seðlabankinn tilkynnti um vaxtaákvörðun sína á fimmtudaginn í síðustu viku. Peningastefnunefnd bankans nefndi í yfirlýsingu sinni í síðustu viku að þegar höft á fjármagnshreyfingar eru til staðar ætti aukinn afgangur á vöru- og þjónustuviðskiptum að styrkja gengi gjaldmiðilsins.

Tímabundnir áhrifaþættir, til dæmis rýrnun viðskiptakjara, árstíðarbundnar vaxtagreiðslur til erlendra aðila og árstíðarbundin aukning innflutnings, hafa á ýmsum tímum haft neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuð og gengi krónunnar. Nefndin segir að það sé á hyggjuefni að gengi krónunnar hefur ekki hækkað að þessum tímabundnu áhrifum gengnum. Þvert á móti er gengi krónunnar að lækka.

Lækkun krónunnar eykur líkur á því að peningastefnunefndin ákveði að hækka vexti Seðlabankans á næstunni.



Velta á aflandsmarkaði meiri en á innlendum markaði - Krónan er 18% lægri þar



Engin breyting hefur orðið á gengi krónunnar gagnvart evrunni á aflandsmarkaði síðustu daga þó svo að gengi krónunnar hafi verið að lækka á innlendum markaði. Engu að síður er veltan á aflandsmarkaði nokkuð meiri en á innlendum markaði eða um 5 milljónir evra á dag og sá markaður þannig virkari.

Verðið á evrunni hefur verið í kringum 220 krónur og verðgildi krónunnar því tæplega 18% lægra þar en á innlendum markaði. Heldur er því að draga saman með gengi krónunnar á þessum tveim mörkuðum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×