Viðskipti innlent

Landsbankamenn hanna leiki fyrir Apple iPhone og iPod

Fyrrum starfsmenn Landsbankans, sem unnu á vefhönnunardeild bankans, vinna nú við að hanna tölvuleiki fyrir Apple iPhone og iPod. Þeir hafa stofnað sitt eigið fyrirtæki utan um þessa starfsemi, Dexoris, og eru þegar með einn leik á markaðinum sem ber nafnið Peter und Vlad.

Alls er um fjóra starfsmenn hjá Dexoris að ræða, þar af einn í fullu starfi hjá fyrirtækinu en hinir þrír gegna öðrum störfum samhliða. Í Landsbankanum unnu þeir meðal annars vefhönnunin fyrir Icesave reikninga bankans.

Jóhann Bergþórsson einn af eigendum Dexoris segir að þegar Landsbankinn fór í þrot s.l. haust hafi þeir fjórir lagst undir feld til að íhuga framtíð sína. Niðurstaðan var að stofna Dexoris og fara út í þessa starfsemi. „Þetta hefur bara gengið vel hjá okkur hingað til og við ætlum að bæta við okkur starfsfólki í náinni framtíð," segir Jóhann.

Aðspurður um fyrsta leik þeirra, Peter und Vlad, segir Jóhann að um fjölskylduvænan tölvuleik sé að ræða fyrir fólk á öllum aldri. „Í mjög stuttu máli gengur hann út á að bjarga sauðfé úr óveðri og inn í fjárhús," segir Jóhann. Leikurinn kom í fyrsta sinn á markað í dag.

Hægt er að kynna sér leikinn hér.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×