Skoðun

Vinstri og hægri hönd Framsóknar

Skúli Helgason skrifar
Gamall félagi úr háskólapólitíkinni, Einar Skúlason, sendir mér kveðju hér í blaðinu á miðvikudag, þar sem hann svarar grein minni hér í blaðinu um félagshyggjustjórn eftir kosningar.

Þar tjáði ég þá skoðun mína að Samfylkingin ætti að lýsa því skýrt yfir fyrir kosningar að við viljum mynda félagshyggjustjórn eftir kosningar, til að kjósendur hafi ekki aðeins vald til að ráða þingstyrk flokka heldur geti jafnframt í reynd kosið um næstu ríkisstjórn.

Ég vitnaði í grein minni í nýjan formann Framsóknarflokksins sem hefði lýst því yfir að framsóknarmenn myndu fylgja þeirri gömlu aðferð að ganga óbundnir til kosninga. Félagi Einar segir mig þarna gera formanninum upp skoðanir.

Þá er rétt að ég geti heimilda áður en lengra er haldið. Morgunblaðið birti 31. janúar síðastliðinn ítarlegt viðtal við Sigmund Davíð, formann Framsóknarflokksins, og þar sagði hann orðrétt:

„Við göngum óbundnir til kosninga. Það er hins vegar alveg ljóst að í Framsóknarflokknum er mikill vilji til þess að gefa Sjálfstæðisflokknum frí frá ríkisstjórn og líta til vinstri, þótt ekki væri nema í ljósi þess hvernig mál hafa þróast í samfélaginu síðustu árin. Mörgum framsóknarmönnum hefur fundist Framsóknarflokkurinn hafa færst til hægri og samfélagið sömuleiðis og telja að nú eigi að líta til vinstri. En Framsóknarflokkurinn mun ekki semja um stjórnarmyndun fyrir kosningar."

Þarna er að vísu sígild framsóknar-íslenska á ferðinni svona já-og-nei, hvorki-né, bæði-og pólitík, en þó formaðurinn lýsi því að vinstri sjónarmið njóti mikils stuðnings í flokknum sem stendur er augljóst af þessum orðum að hann vill halda báðum dyrum opnum og útilokar hreint ekki samstarf við Sjálfstæðisflokkinn að loknum kosningum. Það er gleðiefni að vinstri hönd Framsóknar sé nú vöknuð til lífsins en veit hún hvað sú hægri er að gera?

Höfundur er frambjóðandi Samfylkingarinnar.








Skoðun

Sjá meira


×