Viðskipti innlent

Hæstiréttur dæmir 25 milljóna skaðabætur fyrir skötusel

Hæstiréttur hefur dæmt ríkissjóði til að greiða útgerðinni Berghóli 25 milljónir kr., auk vaxta og dráttarvaxta árin 2003 til 2007 vegna óúthlutaðs kvóta í skötusel sem útgerðin taldi sig eiga rétt á.

Málavextir eru þeir að Berghóll keypti til útgerðar bátinn Hafnarröst ÁR-250 með kaupsamningi 7. mars 2000. Með í kaupunum fylgdi skötuselsúthald af skipinu Keili GK-145, 220 til 240 net ásamt færum, drekum og baujum.

Hann hafi hafið skötuselsveiðar í maí 2000 og gert út frá Þorlákshöfn. Veiðarnar hafi gengið mjög vel og skötuselsafli skips stefnanda hafi verið samtals 359.797 kg frá maí til ársloka. Stefnandi hélt áfram veiðum veturinn 2001 sem hann segir að hafi gengið sæmilega.

Við úthlutun á kvóta á skötusel á næsta fiskveiðiári eftir þetta hafi sjávarútvegsráðuneytið síðan ekki tekið að fullu tillit til þeirrar veiðireynslu sem aflað hafði verið á Hafnarröstinni. Því var málið höfðað.

Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að Stefnandi hefur reiknað tjónið þannig að miðað er við missi á leigu eða sölu á aflahlutdeild sem hann hefði réttilega átt að fá ef tekið hefði verið tillit til veiði­reynslu skipsins á tímabilinu 1. júní til 16. ágúst 2001 við úthlutun á aflaheimildum fiskveiði­árin 2001/2002 og 2002/2003.

Telja verður að stefnandi hafi með þessum útreikn­ingum og útskýringum á þeim sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir umræddu tjóni. Málsástæður stefnda um að tjónið hefði átt að meta á annan hátt eða taka tillit til kostnaðar þykja ekki nægilega rökstuddar og ber því að hafna þeim.

Stefndi þykir heldur ekki hafa sýnt fram á að takmarkanir á framsali aflahlutdeildar geti haft áhrif í þessu sambandi við mat á tjóni stefnanda. Í því felst að líta verður svo á að stefnandi hafi haft heimildir samkvæmt lögunum til framsals á aflaheimildum á þann hátt sem gert er ráð fyrir í útreikningi á bótakröfu hans í málinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×