Viðskipti innlent

Lánið til IG fimmtungur af eigin fé Landsbankans

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Fimmtungur af eigin fé Nýja Landsbankans fór í að lána fyrir kaupum á Icelandic Group. Lánið, sem bankinn lánaði skúffufélagi í eigu tveggja sjávarútvegsfyrirtækja, var upp á 26 milljarða króna. Það var veitt rétt eftir bankahrunið í október 2008 til að kaupa 98 prósent hlut í Icelandic Group.

Um er að ræða lán til skúffufélagsins IG ehf. sem var stofnað eftir hrun og var í eigu útgerðarfyrirtækjanna Brims og Hraðrystistöðvar Gunnvarar á Ísafirði, en Kastljósið greindi frá láninu í gærkvöldi. Eftir kaupin á hlutnum í Icelandic Group, sem er útflutningsfyrirtæki á sviði sjávarafurða, var hlutafé fyrrverandi eigenda fært niður. Lánið frá Landsbankanum var notað til að lagfæra skuldastöðu Icelandic, en tugmilljarða skuldir félagsins voru færðar yfir til IG ehf.

Lán upp á 26 milljarða króna er gífurlega hátt með hliðsjón af efnahagsreikningi Landsbankans. Eigið fé bankans er 150 milljarðar króna, miðað við hinn 8. október 2008. Því er lánið til skúffufélagsins alls sautján prósent af eigin fé bankans á þessum tíma.

Samkvæmt heimildum fréttastofu var ákvörðun um veitingu lánsins tekin af Elínu Sigfúsdóttur, sem þá var nýtekin við sem bankastjóri Landsbankans, en með vitund og samþykki bráðabirgðastjórnar bankans, en formaður stjórnarinnar var Þórhallur Arason, skrifstofustjóri fárreiðuskrifstofu fjármálaráðuneytisins.

Samkvæmt heimildum fréttastofu var eini tilgangur lánsins að vernda hagsmuni Landsbankans og tók bankinn veð í Icelandic með veitingu lánsins. Bankinn hafði í raun tvo kosti, að flytja skuldir Icelandic annað eða taka félagið yfir, en fyrirtækið var í miklum rekstrarvandræðum. Icelandic á fjölmörg dótturfélög erlendis og eftir að breska fjármálaráðuneytið frysti eignir Landsbankans hinn 8. október 2008 með sérstöku úrræði, Landbanki freezing order, voru eignir bankans erlendis í uppnámi. Því tók bankinn ekki þá áhættu að færa Icelandic Group í eignasafn sitt á þessum tíma.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×