Viðskipti innlent

Gengisspár Seðlabankans ganga illa upp

Hagfræðideild Landsbankans gerir spár Seðlabankans í ár að umtalsefni í Hagsjá sinni. Þar segir að til að spárnar gangi eftir þurfi gengi krónunnar að styrkjast um 1,8% á mánuði að meðaltali fram að áramótum.

 

Í Hagsjánni segir að í nýjustu útgáfu Peningamála má finna spá bankans um þróun gengis krónunnar gagnvart evru. Spáir Seðlabankinn því að meðalgengi evru verði 169,2 kr. á evruna á þessu ári, en í síðustu peningamálum gerði bankinn ráð fyrir því að meðalgengi evrunnar myndi vera 158,2 kr. fyrir evruna á þessu ári.

 

Meðalgengi evrunnar á fyrstu átta mánuðum ársins var í kringum 167 kr. en í lok dags í gær kostaði hver evra um 180,5 krónur. Ef við gefum okkur að krónan myndi nú hefja samfellda styrkingu til áramóta þyrfti hún að styrkjast um 1,8% á mánuði þá fjóra mánuði sem eftir eru af árinu til að spá Seðlabankans standist.

 

„Hver þróunin verður er að miklu leyti í höndum Seðlabankans sem hefur tögl og haldir á gjaldeyrismarkaði í ljósi þeirra hafta sem nú ríkja hér á landi," segir í Hagsjánni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×