Viðskipti innlent

SPRON gat ekki staðið við skuldbindingar

Seðlabankinn mat það svo í bréfi til Fjármálaeftirlitsins síðasta föstudag að SPRON gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum eða kröfuhöfum.

Yfirvofandi vandamál sparisjóðsins gætu einnig haft neikvæð og keðjuverkandi áhrif á önnur fjármálafyrirtæki.

Í svarbréfi frá SPRON kom fram að í næstu viku hafi verið 563 milljónir á gjalddaga. Sparisjóðurinn átti 591 milljón en til að tryggja starfsemina en þurfti frekari fyrirgreiðslu hjá Seðlabanka Íslands. Þá benti SPRON einnig á að kröfuhafar hefðu sett fram nýtt tilboð um samninga í síðustu viku sem ekki hafi verið fullreynt hvort að gæti tryggt viðunandi niðurstöðu.

Í bréfi um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins segir að SPRON hafi ekki uppfylt skilyrði til að vera með gilt starfsleyfi og þrátt fyrir nokkurra mánaða frestum á aðgerðum Fjármálaeftirlitsins hafi ekki tekist að leysa eiginfjár- og lausafjárvanda sjóðsins.

Lausafjárvandinn hafi nú verið kominn á það stig að veruleg hætta væri á að starfsemi bankans tæki að truflast vegna þessa á allra næstu dögum.

Stjórn SPRON óskaði svo eftir því við Fjármálaeftirlitið síðdegis í gær að gripið væri inn í reksturinn. Fjármálaeftirlitið vék félagsstjórn SPRON frá þegar í stað og hefur skipað skilanefnd.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×