Innlent

Félitlir Íslendingar hafna skiptinemum

Kreppa.
Kreppa.

Verra efnahagsástand er helsta orsök þess að verr hefur gengið að fá fósturfjölskyldur fyrir skiptinema nú en áður, segir Guðrún Eyþórsdóttir, verkefnastjóri erlendra nema hjá AFS-skiptinemasamtökunum. „Fólk setur fyrir sig að hafa aukamunn að metta þegar það veit ekki hvort það heldur vinnunni í vetur."

Guðrún segir að þrátt fyrir að skiptinemum sem teknir voru til Íslands í ár hafi verið fækkað um fimm síðan í fyrra þá hafi ekki verið búið að útvega tíu þeirra fjölskyldur þegar nemarnir komu til landsins í ágúst. „Við tókum 41 skiptinema til landsins í ár en 46 í fyrra. Af þeim tíu sem ekki höfðu fjölskyldur eru sex komnir með fósturfjölskyldur í dag en fjórir hafa verið flakkandi á milli fjölskyldna síðan í ágúst, verið eina til tvær vikur á hverjum stað. Þetta tekur auðvitað á, þau eru misvel undirbúin undir það að lenda í þessum aðstæðum. Og þetta gerir aðlögunarferlið að nýju landi auðvitað miklu erfiðara. Og nú nálgast jólin og þá fara tárin að streyma," segir Guðrún.

Skiptinemarnir fá sjálfir vasapening frá AFS þannig að fósturfjölskylda ber ekki af þeim neinn kostnað fyrir utan matinn og það er ekki ætlast til þess að þeir fái sérherbergi. Fulltrúar AFS skoða þó aðstæður áður en fósturfjölskylda er samþykkt.

Guðrún segir skiptinemana eiga að vera hluta af fjölskyldunni og taka þátt í daglegu lífi hennar og sinna heimilisstörfum á við aðra fjölskyldumeðlimi. „Krakkarnir sem ekki eru komnir með fjölskyldu eru allir mjög fínir, þeir eru í framhaldsskóla eins og vera ber en það er auðvitað ekkert mál fyrir þá að skipta um skóla og fara í nýjan nálægt nýrri fósturfjölskyldu því misserinu er að ljúka," segir Guðrún.

Krakkarnir sem komu til Íslands í ágúst eru frá átján löndum, flest frá Evrópu en líka frá Venesúela, Bandaríkjunum og Grænlandi svo dæmi séu tekin. Þau eru á aldrinum sextán til nítján ára. Guðrún segir yfirleitt taka skiptinema nokkrar og upp í átta vikur að aðlagast nýju landi. Tengslin á milli skiptinema og fósturfjölskyldu verði oft sterk og haldist jafnvel á milli kynslóða.

sigridur@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×