Viðskipti innlent

Yfirlýsing um yfirtökutilboðið í Exista

Vegna fréttaflutnings á Stöð 2/Bylgjunni og á vísir.is í gær, fimmtudaginn 16. apríl, um tilboð BBR ehf. í hluti í Exista hf. óskar BBR eftir að eftirfarandi komi fram á Stöð 2/Bylgjunni og á vísir.is:

„Frétt á Stöð 2 og á visir.is um að yfirtökutilboð BBR í Exista sé í einhvers konar uppnámi er á misskilningi byggð. Yfirtökutilboðið er til komið vegna lögboðinnar skyldu BBR til þess að bjóða í hluti annarra hluthafa Exista, í kjölfar þess að eignarhlutur BBR fór yfir 40% í Exista. Öðrum hluthöfum er algerlega í sjálfsvald sett hvort þeir taki yfirtökutilboðinu eða virði það að vettugi.

Verðið í yfirtökutilboðinu er hið sama og BBR greiddi fyrir hluti í Exista í desember síðastliðnum. Með tilboðinu er hluthöfum gefinn kostur á því að velja hvort þeir selji bréf sín eða kjósi að vera áfram hluthafar í Exista og mun BBR hvorki hvetja né letja aðra hluthafa til þess að taka tilboðinu."

Athugasemd frá ritstjórn

Í ljósi þess að Nýi Kaupþing ræður yfir rétt rúmlega 10% hlut í Exista og getur með því að afþakka tilboðið komið í veg fyrir yfirtökuna er með réttu hægt að segja að yfirtakan sé í uppnámi. Forsvarsmenn Nýja Kaupþings hafa ekki ákveðið hvort þeir gangi að tilboðinu. Á meðan sú óvissa ríkir er yfirtakan í uppnámi eins og fram kom í fréttinni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×