Viðskipti innlent

SORPA hagnaðist um 34 milljónir á fyrri helming ársins

Samkvæmt rekstrarreikningi var hagnaður SORPU b.s. fyrstu sex mánuði ársins tæpar 34 milljónir kr. en var tæpar 19 milljónir kr. fyrir sama tímabil árið áður. Hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir nam 58,8 milljónir kr. en var 93,4 milljónir kr. fyrir sama tímabil á árinu 2008.

Í tilkynningu segir að handbært fé frá rekstri var á tímabilinu 151,2 milljónir kr. en var fyrir sama tímabil í fyrra 285,1 milljónir kr. Heildareignir samlagsins 30. júní 2009 námu 1.931,6 milljónir kr. og heildarskuldir 790,6 milljónir kr. Eigið fé í lok tímabilsins var 1.141 milljónir kr. og hafði aukist um tæpar 34 milljónir kr. frá því í upphafi árs. Eiginfjárhlutfall var um 59,1 % en var í lok síðasta árs 58,7%.

Rekstrarafkoma SORPU b.s. fyrstu sex mánuði ársins fyrir fjármagnsliði er betri en áætlanir samlagsins gerðu ráð fyrir, þrátt fyrir að magn úrgangs og þar með tekjur hafi dregist saman miðað við fyrra ár.

Ársverkum hefur fækkað þó engum hafi verið sagt upp störfum. Opnunartíma hefur verið breytt og í samvinnu við verktaka hefur fyrirkomulagi verið breytt þannig að leitt hefur til sparnaðar. Magn úrgangs sem berst SORPU er í beinu sambandi við umsvif almennings og fyrirtækja.

Niðurstaða fyrstu sex mánuði ársins og þær aðhaldaðgerðir sem farið hefur verið í hafa skilað árangri en ekki verður gengið lengra í þeim aðgerðum nema þá að það komi niður á þjónustu fyrirtækisins. Stór og mikil verkefni eru að auki framundan næstu árin og því nauðsynlegt að tryggja áfram að góður og traustur grundvöllur sé undir rekstri fyrirtækisins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×