Viðskipti innlent

Fjárfest fyrir hundruð milljóna umfram heimildir

Ingimar Karl Helgason skrifar

Málefni fimm lífeyrissjóða eru til rannsóknar hjá Sérstökum saksóknara bankahrunsins. Grunur leikur á um að farið hafi verið út fyrir ramma laga um fjárfestingar. Fjárfest hafi verið fyrir hundruð milljóna króna umfram heimildir.

Málið varðar Íslenska lífeyrissjóðinn, Lífeyrissjóð Eimskipafélagsins, Lífeyrissjóð Tannlæknafélagsins, Eftirlaunasjóð félags íslenskra atvinnuflugmanna og Kjöl lífeyrissjóð. Sjóðirnir voru í rekstri hjá Eignastýringu landsbankans. Fjármálaeftirlitið vísaði málinu til rannsóknar hjá hinum sérstaka saksóknara

Málið snýst um fjárfestingar í einstökum félögum. Óvíst er hvaða félög er um að ræða, en samkvæmt heimildum fréttastofu námu þessar fjárfestingar hundruðum milljóna króna.

Fram kemur í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu að daglegur rekstur lífeyirssjóðanna fimm verði óbreyttur og að hagsmuna sjóðfélaga verði gætt. Þeir eigað að fá bréf á næstunni um stöðu mála og næstu skref.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×