Viðskipti innlent

Gjaldeyririnn safnast upp hjá fyrirtækjum

Innistæður íslenskra fyrirtækja í erlendum gjaldmiðlum hjá viðskiptabönkunum hafa hækkað um tugi milljarða króna frá áramótum. Það sýnir svart á hvítu að íslensk fyrirtæki forðast krónuna eins og hægt er meðan gjaldeyrishöftin eru við lýði segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Íslensk fyrirtæki áttu 173,5 milljarða króna á svokölluðum gjaldeyrisreikningum í lok maí, en nýjar upplýsingar um stöðu á reikningunum fengust ekki frá Seðlabankanum þegar eftir því var leitað.

„Gjaldeyrishöftin eru einfaldlega yfirlýsing um að íslenska krónan sé ekki í lagi, þau virka eins og stórt viðvörunarskilti," segir Vilhjálmur. Fyrirtæki kjósi því að sitja á erlendum gjaldeyri á gjaldeyrisreikningum frekar en að skipta honum í krónur.

Þessi mikla uppsöfnun gjaldeyris fer aldrei á gjaldeyrismarkað, og styrkir því ekki gengi krónunnar eins og búast hefði mátt við, segir Vilhjálmur. Engar vísbendingar séu um að þróunin hafi verið önnur frá því í maí.

„Það er ekki fyrr en gjaldeyrishöftin verða afnumin sem krónan fer mögulega að lagast. Þeir sem hafa eitthvað val taka ekki stöðu með krónunni. Útflytjendur mega vera með gjaldeyri inni á sínum gjaldeyrisreikningum og taka þar af leiðandi ekki stöðu með krónunni," segir Vilhjálmur.

Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum var inneign íslenskra fyrirtækja á gjaldeyrisreikningum að meðaltali um 110 milljarðar króna síðustu tvö ár fyrir bankahrunið. Í mánuðunum eftir hrunið óx upphæðin verulega, og komst í 237 milljarða í nóvember 2008. Hafa ber í huga að þar sem upphæðin er umreiknuð í íslenskar krónur hefur gengishrun krónunnar bein áhrif.

Innistæður á gjaldeyrisreikningunum voru komnar niður í tæplega 127 milljarða króna í febrúar, en þá fóru þær vaxandi á ný, og voru komnar í 173,5 milljarða í maí. Það er ríflega þriðjungs aukning á þremur mánuðum, um 15 milljarðar á mánuði.

Seðlabankinn hefur ekki uppfært upplýsingar um stöðu á innlendum gjaldeyrisreikningum frá því í maí. Samkvæmt upplýsingum frá yfirmanni upplýsingasviðs bankans stendur til að birta nýjustu tölur á næstunni. Tölurnar koma frá fjármálafyrirtækjum, og beðið er eftir upplýsingum frá einu fyrirtæki.

Ekki fengust upplýsingar um það hvort þær tölur sem þegar hafa borist bendi til þess að sú þróun sem hér hefur verið lýst hafi haldið áfram síðustu þrjá mánuði.

Samkvæmt upplýsingum frá Indriða H. Þorlákssyni, aðstoðarmanni fjármálaráðherra, hefur fjármálaráðuneytið engar nýjar tölur fengið frá því í maí. brjann@frettabladid.is












Fleiri fréttir

Sjá meira


×