Viðskipti innlent

Atvinnulausum hefur fjölgað um tæp 4.000 í febrúar

Atvinnulausum hefur fjölgað um 3.857 í febrúarmánuði en á vef Vinnumálastofnunar eru nú 16.264 skráðir án atvinnu sem er 30% fleiri en skráðir voru án atvinnu í lok janúar en þá voru 12.407 skráðir atvinnulausir.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að atvinnulausum hafi fjölgað mikið allt frá bankahruninu í október en fjöldi atvinnulausra hefur aldrei aukist jafn mikið á milli mánaða og nú.

Þessi mikla aukning í fjölda atvinnulausra í febrúar er tilkomin vegna þess að fjöldi hópuppsagna sem gerðar voru í kjölfar hrunsins tóku gildi í byrjun febrúar eða alls um 1.100.

Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að skráð atvinnuleysi í febrúar verði á bilinu 7,9 -8,4%. Í vor verður atvinnuleysi svo komið upp í 10% samkvæmt mati Vinnumálastofnunar en ljóst er að óvissa í efnahagsmálum og erfiðar aðstæður í atvinnulífinu eigi enn eftir að leiða til niðurskurðar og gjaldþrota fyrirtækja með tilheyrandi atvinnumissi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×