Viðskipti innlent

FME sendi saksóknara öll gögn í fjórum málum

Fjármálaeftirlitið (FME) hefur sent sérstökum saksóknara öll gögn sem FME hefur aflað í fjórum málum. Þetta kemur fram í fyrirspurn Fréttastofu til FME.

Fréttastofa hafði samband við FME í framhaldi af því að eftirlitið og sérstakur saksóknari hafa gert með sér samkomulag um verklagsreglur sín í millum en vangaveltur hafa verið um hvort bankaleynd sem FME telur á skýrslum sínum sé aflétt að hluta með fyrrgreindu samkomulagi.

Í fyrirspurninni var spurt hvort nú þegar Fjármálaeftirlitið og sérstakur saksóknari hafa sett sér samskiptareglur, þýði það að sérstakur saksóknari fái skýrslurnar?

Svar FME hljóðar svo: „Reglurnar hafa það markmið að greiða fyrir upplýsingaflæði milli aðila, stuðla að auknum skilningi á verkaskiptingu aðila og koma í veg fyrir að mál verði rannsökuð samtímis á fleiri en einum stað. Þær breyta þó ekki þeirri verkaskiptingu sem lög gera ráð fyrir.

Hins vegar hefur Fjármálaeftirlitið þegar afhent hluta af skýrslunum, þar sem Fjármálaeftirlitið hefur þegar sent embættinu fjögur mál ásamt öllum þeim gögnum sem hefur verið aflað í tengslum við þau, þ. á m. viðeigandi kafla úr skýrslunum."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×