Viðskipti innlent

Vaxtagjöld til útlanda námu 52 milljörðum frá áramótum

Í heild nema reiknuð vaxtagjöld til útlanda í kringum 52 milljörðum kr. á fyrri helmingi ársins sé leiðrétt fyrir gömlu bönkunum samkvæmt mati Seðlabankans. Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningar Nýja Kaupþings.

Greiningin hefur áætlað gróflega hvernig vaxtagreiðslurnar skiptast en helsta stærðin eru erlendir aðilar því uppistaðan í vaxtagjöldum til útlanda á fyrri helmingi ársins er tengd stöðum erlendra fjárfesta í íslenskum krónueignum.

Þetta má rekja til þess að vaxtadagar ríkisbréfa féllu að stórum hluta til á fyrri helmingi ársins. Vaxtagjöldin námu því um 33 milljörðum kr. á fyrri helmingi ársins. Til samanburðar reiknast vaxtagreiðslur upp á 12 milljarða kr. til erlendra aðila á síðari helmingi ársins.

Reiknuð vaxtagjöld Orkuveitu Reykjavíkur námu 2,7 milljörðum kr. á fyrri helmingi ársins samkvæmt rekstarreikningi, þar af eru 92,3% í erlendum gjaldmiðli en um 20% tekna OR eru í erlendum gjaldeyri.

Landsvirkjun hefur greitt í kringum 5 milljarða kr. í vaxtagreiðslur á fyrri helmingi ársins en um 88% af lánum félagsins eru í erlendri mynt. Þó verður að hafa í huga að tekjur eru að langmestu leyti í erlendri mynt og kalla því ekki á kaup á gjaldeyri.

Erlendar skuldir stærstu sveitarfélaganna eru um 35 milljarðar kr. sem að hluta eru skuldir við gömlu bankana. Áætla má að heildar vaxtagreiðslur sveitarfélaga vegna erlendra lána séu um 3 milljarða kr. á ári en þá á eftir að leiðrétta fyrir vaxtagreiðslum lána sem falla undir gömlu bankana.

Vaxtagreiðslur af erlendum lánum ríkisins námu um 3 milljörðum kr. á fyrri helmingi ársins. Ætla má að vaxtagreiðslur af erlendum lánum á seinni helmingi ársins verði í kringum 9 milljarðar kr.

Greiningin segir að hinsvegar verði að setja verulega fyrirvara um mögulegar vaxtagreiðslur ríkisins til útlanda á næstu misserum - bæði hvað varðar núverandi lán (og lánalínur) og mögulegar lántökur eða framlengingu á núverandi lánum.

Greiningin bendir á að ekki liggi fyrir hvort eða hversu mikið hefur verið nýtt af láni AGS til að styðja við gengi krónunnar - þ.e. við greiðum vexti af þeim hluta lánsins sem er nýttur

Lánakjör, skilmálar og nákvæmar fjárhæðir í lánum til styrkingar gjaldeyrisforðans liggja ekki endanlega fyrir og að ekki er tekið mið af 40 milljarða kr. áföllnum vöxtum vegna Icesave.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×