Viðskipti innlent

Þriggja mánaða verðbólga í núllið

Verði krónan viðlíka veik áfram og síðustu daga hægir á hjöðnun verðbólgu að mati IFS Greiningar. Fréttablaðið/Anton
Verði krónan viðlíka veik áfram og síðustu daga hægir á hjöðnun verðbólgu að mati IFS Greiningar. Fréttablaðið/Anton

Gangi eftir verðbólguspá IFS greiningar fyrir aprílmánuð lækkar 12 mánaða verðbólga í 11,5 prósent og hefur þá ekki verið lægri frá í mars í fyrra. Spáin hljóðar upp á 0,1 prósents hækkun vísitölu neysluverðs milli mánaða.

„Í mars mældist mesta verðhjöðnun í einstökum mánuði í yfir 20 ár. Ef að spá okkar gengur eftir er 3 mánaða verðbólga núll prósent og hækkun vísitölu neysluverðs frá áramótum aðeins 0,6 prósent,“ segir í spánni sem IFS Greining sendi frá sér í gær. „Samkvæmt verðkönnun okkar hækkaði verð á matvælum um eitt prósent í apríl sem hefur 0,12 prósenta áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar. Aðallega virðist verð á innfluttum matvælum hafa hækkað auk þess sem að páskasteikin virðist hafa hækkað nokkuð.“ Fram kemur að kjötvörur hækki oftast fyrir stórhátíðir. Þá er eldsneytisverð sagt hafa tekið nokkurn kipp samhliða lægra gengi krónunnar og hækkað um fimm prósent frá síðustu mælingu.

„Á móti hækkun á matvælum og eldsneyti vegur lækkun á fasteignaverði,“ segir IFS greining en í síðasta mánuði lækkaði reiknuð húsaleiga um 5,1 prósent. „Við búumst ekki við jafn mikilli lækkun nú og í síðasta mánuði og spáum fjögurra prósenta lækkun.“ Þá kemur fram að verð á fatnaði virðist hafa hækkað á milli mánaða í kjölfar útsöluloka og er sú hækkun sögð hafa 0,15 prósenta áhrif á vísitölu neysluverðs.

Spáð er áframhaldandi hraðri verðbólguhjöðnun, en hraði hennar ráðist af gengi krónunnar. „Ef gengi krónu verður veikt áfram mun það á endanum hafa víðtækari áhrif á verðlag en nú þegar er orðið. Lækkun verðbólgu gæti því orðið hægari en ef gengi krónunnar hefði haldið sér á þeim slóðum sem það var í byrjun mars.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×