Viðskipti innlent

Góðgerðasamtök fá tap sitt ekki greitt

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Það er ekki bara fólk á Íslandi sem á um sárt að binda vegna bankahrunsins.
Það er ekki bara fólk á Íslandi sem á um sárt að binda vegna bankahrunsins. Mynd/Vilhelm
Breska ríkið mun ekki koma góðgerðasamtökum sem misstu fé í íslenska bankahruninu til hjálpar. Þetta kom fram í svari fjármálaráðuneytis landsins við skýrslu þingmannanefndar um viðbrögð við bankahruninu. Nefndin hafði lagt til að góðgerðasamtökum yrði bætt tap sitt upp.

Alls misstu bresk góðgerðasamtök um 120 milljónir punda við hrun íslensku bankanna, eða rúma 25 milljarða króna. Peningana höfðu góðgerðasamtökin lagt inn á innlánsreikninga bankanna sem báru háa vexti.

Að mati fjármálaráðuneytisins myndi það setja óraunhæft fordæmi að veita góðgerðastofnunum aðstoð sem stendur öðrum sparifjáreigendum bankanna ekki til boða. Lítil góðgerðasamtök sem eru undir ákveðinni hámarksveltu geta þó sótt um aðstoð úr hjálparsjóði stjórnvalda. Stærri samtök verða að sækja í þrotabú bankanna og bíða og vona að sala á erlendum eignum þeirra gangi vel.

Mörg góðgerðasamtök hafa lýst yfir vonbrigðum og reiði vegna ákvörðunar fjármálaráðuneytisins.

Bresk sveitarfélög töpuðu mestu á íslenska bankahruninu, alls um 953 milljónum punda eða yfir 197 milljörðum króna. Breska ríkið mun ekki heldur bæta þeim tapið.

Þetta kemur fram á fréttavef Times Online.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×