Handbolti

Kiel tapaði stigi á heimavelli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel.
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel. Nordic Photos / Bongarts

Kiel tapaði í kvöld nokkuð óvænt stigi á heimavelli er liðið gerði jafntefli við Lemgo í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta, 27-27.

Aron Pálmarsson átti góðar rispur með Kiel bæði í fyrri og seinni hálfleik og skoraði alls þrjú mörk í leiknum.

Hann skoraði síðustu tvö mörk Kiel í fyrri hálfleik og breytti stöðunni úr 11-11 í 13-11. Gestirnir náðu þó að minnka muninn áður en flautað var til leikhlés og staðan því 13-12.

Kiel náði svo öruggum tökum á leiknum í síðari hálfleik og Aron kom sínum mönnum í fimm marka forystu, 24-19, þegar rúmar sautján mínútur eftir.

En þá tóku gestirnir skyndilega til sinna mála og náðu á næstu tólf mínútum að skora sex mörk gegn einu frá Kiel. Staðan var því orðin jöfn, 25-25.

Kim Andersson hafði ekki náð sér á strik í leiknum en hélt sínum mönnum á floti með tveimur mikilvægum leikjum á lokamínútum leiksins. Momir Ilic átti möguleika á að koma Kiel yfir í lokasókn liðsins í leiknum en það tókst ekki. Því var jafntefli niðurstaðan.

Kiel er enn efst í deildinni og er nú með ellefu stig eftir sex leiki. Liðið hafði unnið alla fimm leiki sína í deildinni til þessa.

Flensburg getur nú komið sér á topp deildarinnar með sigri á Lübbecke um helgina. Lemgo er í þriðja sæti með níu stig. Hvorki Logi Geirsson né Vignir Svavarsson léku með liðinu vegna meiðsla.

Einn annar leikur fór fram í deildinni í kvöld. Hannover-Burgdorf tapaði fyrir Melsungen á heimavelli, 30-26. Hannes Jón Jónsson skoraði eitt mark fyrir Burgdorf sem er í sextánda sæti deildarinnar með tvö stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×