Viðskipti innlent

Ríflega fimmta hver króna fer í vaxtagreiðslur hjá ríkinu

Ríflega ein af hverjum fimm krónum sem hið opinbera hefur í tekjur í ár og á næsta ári fara í að greiða vexti af lánum. Reikna má með því að hallinn á hinu opinbera færist enn í aukanna á næstunni.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að fjármálaráðuneytið reikni með því að tekjuafkoma hins opinbera verði neikvæð um 201 milljarða kr. í ár eða um 13,2% af landsframleiðslu.

Þetta er viðlíka fjárhæð og allur uppsafnaður tekjuafgangur hins opinbera á þensluárunum 2004 til 2007 en hann nam 195 milljörðum kr. Í fyrra var hallinn 17 milljörðum kr. eða 1,2% af landsframleiðslu. Raunar má geta Þess að hallinn mælist 209 milljarðar kr. ef yfirtaka ríkissjóðs á ónýtum skuldabréfum bankanna af Seðlabankanum er reiknuð með.

Reiknar ráðuneytið með því að hallinn verði 185 milljarða kr. á næsta ári eða 12,1% af landsframleiðslu. Þetta er verulegur halli enda hagkerfið að ganga í gegnum eina af erfiðustu niðursveiflum sem það hefur tekist á við.

Skuldir hins opinbera og vaxtagjöld munu aukast talsvert hratt af þessum sökum. Vaxtagjöld hins opinbera fara úr því að vera 46 milljarðar kr. á síðasta ári samkvæmt tölum Hagstofunnar í 126 milljarða .kr. á þessu ári og 132 milljarða kr. á næsta ári samkvæmt spá fjármálaráðuneytisins. Samkvæmt því mun ríflega ein af hverjum fimm krónum sem hið opinbera hefur í tekjur í ár og á næsta ári fara í að greiða vexti af lánum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×