Viðskipti innlent

Erlendir aðilar eiga yfir helming af útistandandi ríkisbréfum

Erlendir aðilar áttu alls 54% af útistandandi ríkisbréfum í lok júlí og 76% af ríkisvíxlum.

 

Erlendir aðilar keyptu megnið af bréfum sem seld voru í síðasta útboði ríkisbréfa í ágúst samkvæmt upplýsingum í mánaðarlegu fréttabréfi Lánamála ríkisins. Erlendir aðilar keyptu 76% af bréfum sem seld voru í útboðinu í flokki RIKB 11 0722 og 73% af bréfum sem seld voru í RIKB 13 0517.

 

Hagfræðideild Landsbankans fjallar um málið í Hagsjá sinni. Þar segir að samkvæmt ritinu sýna útboð síðustu mánaða að erlendir aðilar eru markvisst farnir að kaupa bréf útgefin af ríkissjóði til lengri tíma en áður.

 

Hér er um mikla breytingu að ræða frá því fyrr á árinu þegar útlendingar einbeittu sér fyrst og fremst að kaupum á ríkisvíxlum. Innlendir aðilar keyptu hins vegar allt sem selt var í RIKB 25. Bankar keyptu fyrir 4,2 milljarða kr. eða 44% af seldu magni. Lífeyrissjóðir komu næst á eftir með 2,5 milljarða kr.

 

Í fréttabréfinu er tekið fram að: „ekki hafi verið tekin nein ákvörðun um frekari útgáfu ríkisbréfa á árinu," en sem kunnugt er var markmiðum ársins náð í síðasta útboði. Hins vegar eru fráteknir útboðsdagar á útboðsdagatali enn óbreyttir og í fréttabréfinu kemur fram að næstu fyrirhuguðu útboðsdagar séu annars vegar vegna víxlaútboðs næstkomandi föstudag og hins vegar ríkisbréfa þann 25. september.

 

„Ákjósanlegt væri að gefin yrði út tilkynning þar sem fyrirætlanir ríkissjóðs á skuldabréfamarkaði næstu mánuði yrðu útskýrðar. Slíkt myndi minnka óvissu og stuðla að skilvirkari vaxtamyndun á skuldabréfamarkaði," segir í Hagsjánni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×