Viðskipti innlent

Gistinætur í júlí svipaðar og í fyrra

Gistinætur á hótelum í júlí síðastliðnum voru 203.400 en voru 202.200 í sama mánuði árið 2008. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum nema á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða og á Suðurlandi.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að hlutfallslega fjölgaði gistinóttum mest á Norðurlandi úr 22.300 í 25.000 eða um tæp 12%. Gistinóttum á Höfuðborgarsvæðinu fjölgaði úr 114.500 í 117.200 eða rúm 2%. Gistinætur á Austurlandi voru svipaðar milli ára fóru úr 12.600 í 12.700.

Á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða fækkaði gistinóttum úr 20.700 í 17.700 eða um 15%. Á Suðurlandi fækkaði gistinóttum úr 32.100 í 31.000 eða um 4%.

Gistinóttum Íslendinga á hótelum í júlí fækkaði um tæp 16% milli ára en gistinætur erlendra ríkisborgara jukust um 3%.

Fjöldi gistinátta fyrstu sjö mánuði ársins voru 772.100 en voru 786.700 á sama tímabili árið 2008. Gistinóttum fjölgaði á Suðurlandi um 4% og á Norðurlandi um 6%. Á öllum öðrum landsvæðum fækkaði gistinóttum, mest á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða um 12%.

Fyrstu sjö mánuði ársins fækkar gistinóttum Íslendinga um 14% á meðan gistinóttum erlendra ríkisborgara fjölgar um tæp 2% miðað við sama tímabil árið 2008.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×