Viðskipti innlent

Ástþór Magnússon: Vill kaupa gullforða Seðlabanka Íslands

Ástþór Magnússon vill kaupa gull af Íslendingum.
Ástþór Magnússon vill kaupa gull af Íslendingum.

„Við erum í þeim bissniss að kaupa gull af fólki," segir Ástþór Magnússon, eigandi Goldbank á Spáni en hann sendi seðlabankastjóranum Má Guðmundssyni bréf í dag þar sem hann býðst til þess að kaupa gullforða bankans. Um er að ræða tvö tonn af gulli sem íslenski Seðlabankinn á.

Verð á gulli hefur ekki verið jafn hátt í heiminum í fjöldamörg ár. Gullbanki Ástþórs er tilbúinn að greiða 21 evru fyrir hvert gramm af gulli seðlabankans, það gera átta milljarðir íslenskra króna í allt.

„Þetta er gott tækifæri enda gullmarkaðurinn sjaldan verið jafn hár," segir Ástþór um kostatilboð gullbankans.

Aðalstarfsemi Goldbank er þó ekki að kaupa gull af hálf gjaldþrota ríkjum heldur kaupir hann gull af almenningi. Einstaklingar geta sent gull með DHL pósti til bankans í þar tilgerðum pokum þeir fá svo greitt fyrir. Gullið er brætt og svo selt aftur. Bankinn er staðsettur á Spáni en þar fer aðalstarfsemi hans fram.

„En við erum náttúrulega ekki að fara bræða gullforða seðlabankans," segir Ástþór.

Í bréfi sínu sem hann sendir Má segir meðal annars að nú sé lag að selja gullforðann, enda raunveruleg verðmæti fólgin í íbúum landsins. Aftur á móti er mikið atvinnuleysi og því nýtist sá styrkur illa, segir í bréfinu. Þar af leiðandi sé þjóðráð að selja gullið og fá reiðufé til þess að fjármagna aðgerðir gegn atvinnuleysinu.

Bréfið var sent í dag og því ekki ljóst hvort Már sé búinn að fá það í hendurnar.

Áður þurftu seðlabankar að eiga gullforða til þess að prenta peninga. Það er liðin tíð, nú er mikilvægasta eign flestra seðlabanka gjaldeyrisvaraforði. Þó eiga flestir seðlabankar enn eitthvað af gullforða.

Heimasíða gullbanka Ástþórs er goldbank.eu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×