Viðskipti innlent

Þrotabú Baugs kann að geta krafið Kaupþing um milljarða

Þrotabú Baugs kann að geta krafið Kaupþing um milljarða íslenskra króna vegna uppgreiðslu á lánum með söluandvirði Haga. Aðrir kröfuhafar hefðu átt ríkari rétt á að fá skuldir sínar greiddar en bankinn.

Fjárfestingarfélagið Gaumur, sem er í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu, fékk 30 milljarða króna lán frá Kaupþingi til að kaupa 95% hlut í Högum af Baugi Group í gegnum félagið 1998 ehf. Fyrirtæki í eigu Haga eru meðal annars Bónus, Hagkaup og fleiri fyrirtæki.

Lánið sem Kaupþing veitti til kaupanna á Högum notaði Baugur Group til að greiða niður skuldir við Kaupþing að upphæð 25 milljarða og Glitni að upphæð fimm milljarða. Baugsfjölskyldan tók því 30 milljarða króna lán til að kaupa Haga af sjálfri sér og notaði lánið til að greiða niður aðrar skuldir við lánveitandann sjálfan og Glitni. Mikil umræða hefur verið um hvort að þessum kaupum verði mögulega rift.

Samkvæmt heimildum fréttastofu kemur það þó líka til greina að rifta öðrum þáttum samningsins en einungis kaupverðinu. Þá sér í lagi að ekki hafi verið forsvaranlegt að nota það sem eftir stóð af láninu eftir að búið var að losa öll veð til uppgreiðslu á öðrum lánum hjá bankanum. Aðrir kröfuhafar hefðu átt ríkari rétt á því að fá skuldir sínar greiddar en bankinn. Líklegt er að þetta verði eitt af þeim málum sem reifuð verða við kröfuhafahafa á skiptafundi í næstu viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×