Erlent

Kæra illa meðferð í kjölfar mótmælanna í Íran

Frá mótmælunum í Íran í júní sl. Mynd/AP
Frá mótmælunum í Íran í júní sl. Mynd/AP
Tugir manna hafa lagt fram kærur í Íran vegna slæmrar meðferðar sem þeir fengu þegar þeir voru handteknir fyrir að mótmæla úrslitum forsetakosninga í landinu.

Hundruð manna voru handteknir í mótmælum sem brutust út þegar Mahmoud Amadinejad var kjörinn forseti Írans. Því var haldið fram að hann hefði aðeins unnið með víðtæku kosningasvindli.

Ef marka má þá sem voru fangelsaðir var farið illa með þá. Þrír mótmælendur létust í fangavistinni og aðrir hafa skýrt frá nauðgunum, barsmíðum og öðrum pyntingum.

90 manns hafa þegar lagt fram kærur. Yfirvöld hafa brugðist við þessu og hafa sjö lögreglumenn og fangaverðir verið handteknir.

Lögreglan beitti mikilli hörku við að brjóta mótmælin á bak aftur og það tókst eftir mikil átök.

Óeirðirnar í sumar voru þær mestu sem orðið hafa síðan Ayatolla Khomeini tók völdin í Íran í múslimabyltingu sinni árið 1979. Hann breytti Íran úr veraldlegu keisaraveldi í strangtrúað múslimaríki þar sem mannréttindi og þá réttindi kvenna eru mjög af skornum skammti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×