Viðskipti innlent

Mikil aukning á notkun erlendra manna á vef Hagstofunnar

Vefur Hagstofu Íslands hefur aldrei verið jafn vel sóttur og á síðustu mánuðum. Sérstaklega hefur áhugi á efnahagstölum á enskum hluta vefsins aukist eða yfir 200% milli ára.

Fjallað er um málið á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að af þessu megi ráða að efnahagsleg áföll undanfarinna mánaða hafi aukið þörf notenda fyrir áreiðanlegar upplýsingar sem unnar eru samkvæmt alþjóðlegum stöðlum.

Hagstofan mælir notkun á hagtölum, bæði á íslenskum hluta vefsins og enskum . Á íslenska hluta vefsins hefur notkunin aukist jafnt og þétt undanfarin ár en umferð um enska hlutann hefur tekið stökk á milli ára. Notkunin jókst um 192% milli áranna 2005 og 2006 á enska hlutanum og 219% milli áranna 2008 og 2009.

Í febrúar 2009 voru gerðar um 124 þúsund fyrirspurnir í veftöflur á hagtöluhluta vefsins eða að meðaltali um 4.400 á sólarhring.

Eftirspurnin er þó mismikil eftir efnisflokkum og í sumum tilfellum eru enskar töflur meira notaðar en íslenskar. Í febrúar síðastliðnum voru tæplega 28 þúsund fyrirspurnir gerðar í enskar veftöflur um þjóðhagsreikninga og opinber fjármál en mjög óvenjulegt er að sjá svo mikla notkun á enska vefnum. Til samanburðar voru 1.800 fyrirspurnir í sama efni í febrúar í fyrra.

Á sama tíma var notkunin á enska hluta vefsins meiri en á þeim íslenska í sex af 15 efnisflokkum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×