Erlent

Georgíumenn áttu upptökin

Salome Samadashvili fastafulltrúi Georgíu í Brussel á blaðamannafundi þar sem skýrslan var kynnt.
Nordicphotos/AFP
Salome Samadashvili fastafulltrúi Georgíu í Brussel á blaðamannafundi þar sem skýrslan var kynnt. Nordicphotos/AFP

 Upphaf stríðs Rússlands og Georgíu á síðasta ári má rekja til árásar Georgíuhers á Suður-Ossetíu, lýðveldi innan Georgíu sem lengi hafði barist fyrir aðskilnaði frá Georgíu og sameiningu við Rússland.

Þetta er niðurstaða óháðrar nefndar á vegum Evrópusambandsins, sem skilaði frá sér skýrslu á miðvikudag.

Í skýrslunni eru Rússar síðan sakaðir um að hafa stundað hernað langt handan landamæranna inni í Georgíu. „Allt það er engan veginn hægt að telja í neinu samræmi við þá hættu sem steðjaði að rússneskum friðargæsluliðum í Suður-Ossetíu,“ segir í skýrslunni.

Hefndaraðgerðir Rússa vegna árásar Georgíu fóru langt út fyrir eðlileg mörk varnarbaráttu, segir enn fremur í skýrslunni.

Salome Samadashvili, sendiherra Georgíu hjá Evrópusambandinu, segir spurninguna um það hver gerði fyrst árás ekki skipta máli ef tveggja áratuga spenna vegna aðskilnaðarbaráttu Suður-Ossetíu er ekki tekin með í myndina.

Vladimir Chizhov, sendiherra Rússlands, sagði skýrsluna ekki draga fram málstað Rússa, en í henni sé þó svarað spurningunni um hverjir áttu upptökin, sem hann segir lykilspurningu. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×