Viðskipti innlent

Mosaic Fashions í greiðslustöðvun í dag

Mosaic Fashions verður bútað í sundur og sett í greiðslustöðvun í dag samkvæmt frétt í breska blaðinu Sunday Times.

Kaupþing mun taka yfir stjórn Mosaic strax eftir greiðslustöðvun og kaupir fjögur af þekktustu merkjum Mosaic í samvinnu við David Lovelock og aðra stjórnendur félagsins. Mosaic skuldar Kaupþingi 400 milljónir punda eða um 65 milljarða kr..

Merkin sem hér um ræðir eru Karen Millen, Coast, Oasis og Warehouse. Hinsvegar verða Principles og Shoe Studio seld sérstaklega.

Viðræður hafa verið í gangi við Debenhams og fyrrum forstjóra Rubicon Retail um kaupin á Principles.

Samkvæmt áætlun sem sett hefur verið upp munu forráðamenn Mosaic fá 5 til 10% eignarhlut í félaginu. Talsmaður Mosaic segir í samtali við Sunday Times að tilkynning um málið sé væntanleg í þessari viku en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Baugur á 49% hlut í Mosaic Fashions.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×