Viðskipti innlent

Farice ehf. með 9 milljarða í vanskilum, samið við kröfuhafa

Eignarhaldsfélagið Farice er nú með um 9 milljarða kr. af heildarskuldum sínum í vanskilum. Af þessum sökum hefur verið samið við kröfuhafa félagsins um að greiða ekki gjaldfallnar afborganir af skuldum sínum fram til loka febrúar á næsta ári. Á meðan verður rekstur Farice endurskipulagður.

Í tilkynningu segir að tekjur Eignarhaldsfélagsins Farice ehf. á árinu 2009 hafa ekki verið í samræmi við áætlanir félagsins, m.a. vegna þess að uppbygging netþjónabúa og annars iðnaðar sem nýtir flutningsgetu ljósleiðara Eignarhaldsfélagsins Farice ehf. til og frá Íslandi hefur dregist.

Hefur þetta leitt af sér að félagið hefur ekki náð að halda öllum skuldum þess í skilum. Af þeim sökum hefur Eignarhaldsfélagið Farice ehf. að undanförnu unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu á félaginu. Í þessu skyni hefur félagið m.a. gert samkomulag við kröfuhöfa sem fara með um 98,5% af heildarkröfum á það félag að frátöldumkröfum skuldabréfaeigenda EFAR 09 01, en sá skuldabréfaflokkur er í skilum og er næsti gjalddagi þann 15. apríl 2010.

Skuldabréfaflokkurinn EFAR 09 01 er að nafnvirði 5 milljarða kr. og er með einfaldri ábyrgð ríkissjóðs í samræmi við lög um ríkisábyrgðir.

Í samkomulaginu við kröfuhafa Eignarhaldsfélagsins Farice ehf. felst að kröfuhafar fallast á að félagiðþurfi ekki að greiða gjaldfallnar afborganir út samningstímann sem rennur út þann 28. febrúar 2010. Verður tíminn fram að því nýttur til að útbúa og leggja fyrir aðila samkomulagsins tillögur um fjárhagslega endurskipulagningu félagsins.

Unnið er að gerð samskonar samkomulags við kröfuhafa dótturfélags Eignarhaldsfélagsins Farice ehf., Farice hf. Eignarhaldsfélagið Farice ehf. á um 79,9% af heildarhlutafé í Farice hf.

Heildarskuldir Eignarhaldsfélagsins Farice ehf. á samstæðugrunni nema um 113,8 milljónum evra, en þar af eru um 49,2 milljónir evra eða um 9 milljarðar kr. í vanskilum. Af því nema heildarskuldir Farice hf. um 25,8 milljónum evra eða um 4,7 milljarðar kr., en þar af eru um 2,8 milljónir evra eða rúmur hálfur milljarður kr. í vanskilum.

Að öðru leyti en fram kemur hér að framan hafa ekki orðið verulegar breytingar á framtíðarhorfum eða fjárhagsstöðu Eignarhaldsfélagsins Farice ehf. frá 30. júní 2009, að því er segir í tilkynningunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×