Viðskipti innlent

Saka íslensk stjórnvöld um gerræðisleg vinnubrögð

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir mikið langlundargeð hafa verið sýnt.
Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir mikið langlundargeð hafa verið sýnt.

Erlendir lánadrottnar saka íslensk stjórnvöld um gerræðisleg og illa ígrunduð vinnubrögð vegna yfirtökunnar á SPRON. Tap lánadrottna SPRON og Sparisjóðabankans er talið nema rúmum 150 milljörðum króna.

Fjármálaeftirlitið tók yfir rekstur SPRON og Sparisjóðabankans á laugardaginn.

Bankarnir voru þá búnir að starfa í fimm mánuði á undanþágu frá Fjármálaeftirlitinu vegna bágrar eiginfjárstöðu.

Erlendir lánadrottnar vildu bjarga bönkunum frá falli og lögðu meðal annars fram tilboð sem fól í sér afskriftir skulda og lengingu lána. Þetta tilboð þótti hins vegar ekki nógu gott.

„Það var mat manna að þau tilboð sem fyrir lágu væru alveg ófullnægjandi til þess að tryggja þessum tveimur aðilum lífvænlega framtíð," sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, í samtali við fréttastofu.

Fréttastofa hefur undir höndum bréf sem fulltrúar 35 erlendra lánastofnana sendu stjórnvöldum á föstudaginn í síðustu viku. Um er að ræða stærstu lánadrottna SPRON.

Þar eru stjórnvöld m.a. vöruð við því að taka yfir rekstur bankans. Það verði séð sem gerræðisleg og illa ígrunduð vinnubrögð.

Óskað er eftir fundi með stjórnvöldum áður en gripið verður til aðgerða.

Viðskiptaráðherra segir að ekki hafi gefist meiri tími til skrafs og ráðagerða.

„Það var búið að sýna þeim mikið langlundargerð. Það voru liðnir fimm mánuðir frá falli bankanna og það lá fyrir að SPRON og Icebank væru ekki starfhæfir nema kröfuhafar féllu frá stórum hluta sinna krafna. Það var búið að reyna mánuðum saman að ná einhverri niðurstöðu í það en það tókst ekki," segir Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.

Samkvæmt heimildum fréttstofu þurfa erlendir lánadrottnar að afskrifa allt að 1 milljarð evra vegna gjaldþrots bankanna eða sem nemur rúmum 150 milljörðum króna.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×