Viðskipti innlent

Áætlað að ríkið setji 280 milljarða í nýju bankana

Gunnar Andersen, forstjóri fjármálaeftirlitsins.
Gunnar Andersen, forstjóri fjármálaeftirlitsins.

Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, sagði að líklega þyrfti ríkið að setja 280 milljarða inn í nýju bankana til að þeir yrðu starfhæfir og gætu starfað á eðlilegum viðskiptagrundvelli. Að auki eru gerðar ríkari kröfur til eiginfjárhlutfalls íslensku bankanna. Þetta kom fram á blaðamannafundi um íslenska bankakerfið nú í hádeginu.

Alþjóðlegt eiginfjárhlutfall banka í samræmi við Basel-reglurnar er 8 prósent en nýju íslensku bankarnir þurfa að búa við 12 prósenta eiginfjárhlutfall. Gunnar segir að þetta hlutfall sé geysilega hátt en nauðsynlegt til að tryggja stöðugleika nýja bankakerfisins. Að auki hefur fjármálaeftirlitið endurskipulagt álagspróf sín og telur Gunnar að nýju bankarnir geti þolað mikil áföll og djúpa efnahagslægð í framtíðinni.

Fármálaeftirlitið hafi látið framkvæma ítarlega úttekt á nýju bönkunum þar sem sérstök áhersla hafi verið lögð á útlánaáhættu. „Útlánaáhættan er talsverð vegna óvissu um gæði útlána bankanna sem flutt voru úr gömlu bönkunum og yfir í þá nýju." Áætlanir gera ráð fyrir því að ríkið þurfi að setja um 280 milljarða inn í nýju bankana.

Lykiláhersla var lögð á það að nýju bankarnir væru lausir við pólítíska hagsmuni og þeir stjórnarmenn og stjórnendur sem kæmu til með að stýra nýju bönkunum yrðu valdir af kostgæfni. Þeir hefðu mikla sérþekkingu og væru virtir á þeim vettvangi sem um ræðir. „Við þurfum að búa til bankakerfi til framtíðar, við viljum ekki sjá annað bankahrun og því verður farið varlega í sakirnar," sagði Gunnar Andersen, forstjóri fjármálaeftirlitsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×