Viðskipti innlent

Moody´s: Áhrif kreppunnar langvinnust á Íslandi

Hvað varðar Ísland telur Moody's að áhrif alþjóðlegu fjármálakreppunnar kunni að reynast einna langvinnust hér á landi. Sá harði skellur sem fall bankakerfisins olli hagkerfinu hafi þó verið mýkri fyrir það hversu smátt og opið hagkerfið er.

Þetta kemur fram í umfjöllun greiningar Íslandsbanka í Morgunkorni sínu um nýtt álit Moody´s á stöðu Íslands, Lettlands og Ungverjalands.

Í Morgunkorninu segir að Moody´s telur að verg landsframleiðsla muni skreppa saman um u.þ.b. 10% að raunvirði í ár frá síðasta ári, og er það meiri samdráttur en Moody's spáir í Ungverjalandi en minni en spáð er í Lettlandi.

Á næsta ári spáir Moody's lítilsháttar hagvexti hér á landi, fyrst og fremst vegna áframhaldandi bata á utanríkisviðskiptum auk þess sem stóriðjufjárfesting mun vega gegn samdrætti í annarri innlendri fjárfestingu. Matsfyrirtækið hefur áhyggjur af áhættu tengdri íslensku krónunni og telur að innlendir vextir muni verða háir þar til krónan styrkist og/eða slakað er á gjaldeyrishöftunum, þrátt fyrir neikvæð áhrif hárra vaxta á innlenda fjárfestingu.

Moody's á von á því að innlend eftirspurn verði alllengi að taka við sér á Íslandi, ekki síst þegar skattahækkanir og niðurskurður opinberra útgjalda bætast við mikla skuldsetningu heimilanna. Fyrirtækið telur að til að horfur fyrir lánshæfiseinkunn ríkissjóðs Íslands verði stöðugar á ný þurfi að koma til aukinn og víðtækur stöðugleiki í efnahagslífinu, endurbætur á hagstjórn án óþarfa tafa og merki um að skuldastaða hins opinbera jafnt sem einkageirans sé viðráðanleg.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×