Viðskipti innlent

Straumur: Verulega búið að taka til hjá West Ham

Georg Andersen forstöðumaður samskiptasviðs Straums segir að verulega sé búið að taka til í fjármálum enska úrvalsdeildarliðsins West Ham. CB Holding tók yfir eignarhaldið á West Ham um mitt þetta ár en félagið er 70% í eigu Straums og 30% í eigu Landsbankans, Byr og fleiri.

Aðspurður um upplýsingar þær sem birtar voru í breska blaðinu The Guardian í morgun segir Georg að nokkurrar ónákvæmni gæti þar því verið er að ræða um uppgjörið fyrir síðasta reikningsár West Ham sem nær frá miðju ári 2007 fram á mitt ár í fyrra.

„Eftir að CB Holding tók við rekstrinum hefur ýmislegu verið breytt eins og að þáverandi leikmannakaupastefna liðsins var lögð af," segir Georg. „Nú er liðið rekið eins og hvert annað fyrirtæki og ekki eytt meiru af fé en aflað er."

Ennfremur segir Georg að um leið og CB Holding tók yfir rekstur West Ham hafi verið samið við lánadrottna liðsins og því jafnframt tryggð fjármögnun til áframhaldandi starfsemi sinnar.

Ítarleg umfjöllun verður um málefni West Ham í hádegisfréttum Stöðvar 2 í dag. Þar kemur m.a. fram að West Ham hefur tekist að losa rándýra leikmenn af launaskrá og áfram haldið að leiðrétta fjárhagsstöðuna eftir Björgólf Guðmundsson og Eggert Magnússon. West Ham er 114 ára gamalt félag og eitt það sögufrægasta á Englandi en það tók Íslendingana aðeins tvö ár að koma því á kaldan klaka.
































Fleiri fréttir

Sjá meira


×