Viðskipti innlent

MP: Lífsnauðsynlegt fyrir Ísland að fá beinar fjárfestingar

Margeir Pétursson stjórnarformaður MP Banka segir að það sé lífsnauðsynlegt fyrir Ísland að fá beinar fjárfestingar inn í landið. „Annars fáum við ekki kraft að nýju í efnahagslífið," segir Margeir í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

 

NRK ræddi við Margeir í tilefni af kaupum norska fjárfestisins Endre Rösjö á 15% hlut í MP Banka. Þessi kaup hafa vakið töluverða athygli í Noregi og fjallað er um þau í þarlendum fjölmiðlum.

 

Fram kemur í máli Margeirs að þessa stundina lifi Íslendingar á því að landið er orðið ódýrt heim að sækja eftir að gengi krónunnar hefur hrunið.

 

„Kreppan hefur ekki orðið eins djúp eins og við óttuðumst," segir Margeir. „Ísland er orðið ódýrt fyrir ferðamenn og við höfum ætíð vanist því að vinna mikið."

 

Fram kemur í umfjöllun NRK að Rösjö hyggur á fleiri fjárfestingar á Íslandi og það er tónlist í eyrum Margeirs. Sjálfur er Rösjö spurður um áhuga sinn á að fjárfesta á Íslandi. Hann segir að eftir að hafa kynnt sér málin hérlendis náið hafi hann fundið einn banka á Íslandi sem ekki hafi kostað skattgreiðendur neitt og það var MP Banki.

 

„Svo má kannski líka líta á þetta sem svo og þegar frændur vorir og frænkur eru í vanda eigum við að rétta þeim hjálparhönd," segir Rösjö.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×