Erlent

Bjargað úr rústum eftir tvo sólarhringa

Mynd/AFP

Tveimur var bjargað úr rústum húsa á Indónesíu í gær, nærri tveimur sólarhringum eftir að þær grófust undir. Önnur þeirra var nægilega hress til að bjóða fram fimm fingur í kveðjuskyni á móti hönd björgunarmanns meðan hún var borin burt.

Björgunarfólk vann í kappi við tímann, en litlar vonir þykja til að fleiri finnist á lífi úr því sem komið er.

Óttast er að þrjú þúsund manns eigi eftir að finnast látnir, en sá fjöldi bætist þá við þau rúmlega 700 lík sem nú þegar hafa fundist á vestanverðri eyjunni Súmötru. Rotnunarlyktin var stæk þegar tugir líka voru lagðir í röð á stéttar borgarinnar Padang, þar sem tjónið varð mest.

Erfitt hefur reynst að veita fólki nauðsynlega læknishjálp og víða hafa ekki einu sinni björgunarmenn komist á staðinn.

Ástæða var þó til að fagna þegar konurnar tvær fundust á lífi í rústum skólabyggingar í Padang. Ratna Kurnisari Virgo er 19 ára enskunemi en hin er kennari í málaskólanum, Suci Revika Wulan Sari. Sari hafði legið innan um lík nemenda sinna í nærri tvo sólarhringa, en virtist ekki hafa orðið mikið meint af.

„Hún var með meðvitund, en fætur hennar og fingur voru bólgnir vegna þess að hún var undir þrýstingi," sagði skólastjóri hennar, Teresia Lianawaty.

Jarðskjálfti, sem mældist 7,6 stig, varð á miðvikudag skammt frá Padang, sem er 900 þúsund manna borg á vestanverðri Súmötru. Á fimmtudagsmorgun varð síðan annar stór skjálfti, sem mældist 6,7 stig.

gudsteinn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×